Námskeið fyrir almenning um áhrif þess að Ísland sæki um inngöngu í ESB verður haldið á vegum Endurmenntun Háskóla Íslands um miðjan mánuðinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Endurmenntun en þann 16. febrúar næstkomandi fer stofnunin af stað með fjögurra kvölda námskeið um Evrópusambandið.

Þar mun Maria Elvira Mendez Pinedo, lektor við lögfræðideild HÍ veita almenna fræðslu um Evrópusambandið, EES og muninn á ESB og EES.

„Með þessu námskeiði leitast Elvira, sem er sérfræðingur í Evrópurétti, við að draga fram kosti og galla aðildar, þannig að Íslendingar geti betur gert sér grein fyrir því hvað er í húfi - og hvort hagsmunum Íslands yrði betur borgið innan eða utan ESB,“ segir í tilkynningunni.

„Hverjir eru kostir og gallar aðildar að ESB fyrir Íslendinga? Hver er munurinn á ESB og EES? Lögð verður áhersla á hagnýt atriði er varða rétt almennings.“

Fram kemur að Elvira hefur verið búsett á Íslandi frá því árið 2001 og hefur starfað sem lektor við lögfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2007. Áður starfaði hún hjá Evrópusambandinu en hefur einnig verið ráðgjafi Heilbrigðis- og Tryggingamálaráðuneytisins í Evrópurétti. Evrópuréttur er hennar sérsvið. Elvira heldur námskeiðið á íslensku.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.