Veitingastaðurinn Hornið í Hafnarstræti í Reykjavík var rekinn með 10,9 milljóna króna tapi í fyrra samanborið við tæplega 600 þúsund króna tap árið 2019. Rekstrartekjur félagsins námu 118 milljónum og drógust saman um 16,5% á milli ára. Um síðustu áramót voru eignir metnar á 118 milljónir króna en eigið fé var neikvætt sem nemur 108 milljónum.

Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á rekstur veitingastaða og er Hornið engin undantekning. Í skýringum með ársreikningi félagsins, sem er dagsettur í júlí, kemur fram að forráðamenn félagsins reikni með því að reksturinn verði jákvæður á yfirstandandi ári og félagið rekstrarhæft.

„Ef litið er á sjóðstreymi fyrir árið 2020 er það jákvætt,“ segir í skýringunni. „Það er álit stjórnenda félagsins að þrátt fyrir að bókfært eigið fé félagsins sé neikvætt í árslok 2020 sé eigið fé í raun jákvætt þegar tekið er tillit til hugsanlegs söluverðs fasteignar að frádreginni tekjuskattsskuldbindingu. Miðað við þá jákvæðu aðstoð sem viðskiptabanki félagsins hefur veitt og jákvæðar fréttir af ferðamönnum til landsins eru stjórnendur hæfilega bjartsýnir á að rekstur ársins 2021 verði jákvæður.“