Í sveitarstjórnarkosningunum í maí árið 2014 var kjörsókn í landinu minni en nokkru sinni fyrr. Á landinu öllu varð heildarkjörsóknin 66,5% og í þremur stærstu sveitarfélögum landsins – Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði – var hún einungis um 60 prósent.

Allt frá sveitarstjórnarkosningunum árið 2002 hefur kjörsókn verið að minnka. Það ár var hún  83,2%. Árið 2006 var hún  78,7%, í 73,5% árið 2010 og loks í 66,5% í kosningunum síðasta vor.

Vegna þessarar þróunar var ráðist í gerð könnunar á kosningaþátttöku. Þeirri vinnu er nú lokið og var ný skýrsla kynnt á fundi í innanríkisráðuneytinu í dag.

„Ef bornir eru saman svarendur sem kusu annars vegar og kusu ekki hins vegar sést greinilegur munur," segir í niðurstöðum skýrslunnar.  „Kosningaþátttaka svarenda á aldursbilinu 18 til 29 ára var talsvert lægra (63%) en kosningaþátttaka svarenda í eldri aldurshópunum (76%-87%). Kosningaþátttaka var mest meðal svarenda 60 ára og eldri, eða um 87%.

Kosningaþátttaka var minni á meðal svarenda sem eru einhleypir (63%) samanborið við þá sem eru í sambúð (71%), í hjónabandi/staðfestri samvist (87%) og fráskildra / ekkla/ekkna (81%)."

Í heildina sögðu 30% þeirra sem ekki kusu í kosningunum síðasta vor ástæðuna einfaldlega vera þá að þeir hefðu ekki nennt því.

Rafrænar kosningar

Í skýrslunni kemur einnig fram að 65% þeirra sem ekki kusu töldu að hefði verið hægt að kjósa rafrænt í gegnum netið hefði það aukið líkurnar á kosningaþátttöku þeirra.

Rannsóknin, sem kynnt var í innanríkisráðuneytinu, er samstarfsverkefni ráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnunar HÍ og doktorsnema við Háskólann í Mannheim í Þýskalandi. Sambandið og ráðuneytið fjármögnuðu framkvæmdina og grunnúrvinnslu en háskólarnir hina fræðilegu vinnu að öðru leyti.

Hægt er að skoða skýrsluna hér .