Sjónvarpsþáttaveitan Netflix hefur náð samningum um framleiðslu á sinni fyrstu kvikmynd. Um er að ræða framhaldsmynd kvikmyndarinnar 'Crouching Tiger, Hidden Dragon' og er stefnt að frumsýningu myndarinnar á næsta ári. BBC News greinir frá.

Netflix er núna með um 50 milljónir áskrifenda í meira en 40 löndum og hefur til þessa aðeins framleitt sjónvarpsþætti, þ.á.m. þættina 'House of Cards'. Fyrirtækið hyggst hins vegar snúa sér í auknum mæli að framleiðslu kvikmynda og telur markaðinn fyrir þær vera að breytast. Fólk horfi meira á kvikmyndir heima hjá sér en áður og heimsóknum í kvikmyndahús fari fækkandi.

Leikarar í myndinni verða meðal annarra Michelle Yeoh og Donnie Yen. Ang Lee, sem leikstýrði fyrstu myndinni, mun þó ekki koma að gerð myndarinnar.