Þekking hefur gengið frá samningum við Netorku um hýsingu og rekstur upplýsingakerfa Netorku, segir í fréttatilkynningu, þar segir að gengið hafi verið til samninga að undangengnu útboði þar sem sett voru ströng skilyrði um öryggi gagna og gæði veittrar þjónustu.

Netorka er hlutafélag í eigu raforkufyrirtækjanna og er sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað í markaðsvæddu umhverfi.

Samningurinn felur í sér að Þekking hefur umsjón með öllum rekstri tölvukerfa Netorku. Þekking hýsir kerfi Netorku, þar með talið miðlægan mæligagnagrunn og uppgjörskerfi, skeytasendingarkerfi, heimasíðu fyrirtækisins og þjónustuvefinn orkutorg.is. Orkutorgið veitir upplýsingar til neytenda sem varða kaup á rafmagni og heitu- og köldu vatni frá orkufyrirtækjunum.

Helsti ávinningurinn af samstarfinu er sá að sérfræðingar Þekkingar sjá alfarið um allt sem lýtur að uppsetningu og rekstri vélbúnaðar þess sem hýsir kerfi Netorku ásamt rekstri á fjarskiptalínum sem tengja kerfi Netorku við orkufyrirtækin.