Orkustofnun birti nýja raforkuspá á dögunum en Landsnet birti orkuspá síðast í ágúst í fyrra. Núverandi raforkuframleiðsla Íslands er ríflega 20 TWst á ári.

Grunnspá Orkustofnunnar gerir ráð fyrir mjög lítilli aukningu en samkvæmt þeirri spá verður markmiðum stjórnvalda í orkuskiptum ekki náð og takmörkuð aukning verður hjá stórnotendum.

Orkustofnun reiðir sig aftur á móti á háspá - sem gerir ráð fyrir að raforkuþörfin verði um 40 TWst 20150 - við mat á þörf fyrir nýjar fjárfestingar í flutnings- og dreifikerfinu. Síðasta spá Landsnets gerir síðan ráð fyrir enn meiri aukningu.

Ef miðað er við grunndæmi orkuspár Landsnets má gera ráð fyrir að almenn orkunotkun muni aukast um tæplega 22 TWst til ársins 2050, sem þýðir að auka þarf uppsett afl um 3.177 MW á sama tímabili. Til samanburðar jókst framleiðslan á árunum 2013-2023 um 2,3 TWst og uppsett afl um 278 MW.

Munu þurfa að skerða forgangsorku

Áhrif orkuskorts eru þegar byrjuð að koma fram en skerða hefur þurft raforku til stórnotenda þrjú ár í röð. Samkvæmt skýrslu Landsnets sem gefin var út í fyrra kostuðu skerðingarnar veturinn 2021-2022 5,3 milljarða króna.

Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar Landsnets fór yfir stöðuna á vorfundi Landsnets á dögunum. Landsnet varaði við yfirvofandi orkuskorti árið 2019 í skýrslunni Afl- og orkujöfnuður en ný skýrsla er í undirbúningi. Meðal þess sem mun koma þar fram er að frá og með næsta ári komi til skerðinga á forgangsorku.

„Það þýðir hreinlega það að við erum að stefna í ákveðið neyðarástand af því að það þarf að fara að skerða trygga orku. Aðilar sem hafa gert sér samninga um trygga orku eru ekki endilega að fara að geta uppfyllt það,“ sagði Svandís Hlín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.