Neysla jókst í Bandaríkjunum í apríl þessa árs um ríflega eina prósentu. Einna helst voru það bifreiðar og langtímaeignir sem voru keyptar í auknu magni á tímabilinu. Síðast jókst neysla um svo mikið á svo stuttu tímabili árið 2009 - þegar kreppunni var „formlega“ lokið.

Hagfræðingar telja sumir hverjir að þessi aukning í neyslu gæti boðað gott fyrir hagkerfið í heild sinni og sýnt fram á að það sé í góðu standi eins og er. Stuart Hoffman, aðalhagfræðingur PNC fjármálaráðgjafa í Bandaríkjunum, er einn þeirra sem er þessarar skoðunar.

„Neytendur byrjuðu árið með miklum hvell,“ sagði Stuart. „Neysla mun halda áfram að leiða hagvöxt fyrir árið 2016, en aukin atvinnutækifæri og hækkandi laun munu veita heimilum aukið ráðrúm til neyslu.“

Þá hélst hækkun persónulegra tekna í hönd við neysluaukninguna. Tekjur jukust á landsvísu um 0,4% í apríl sem er þriðja hækkunin í röð á síðustu fjórum mánuðum. Í stað þess að leggja auknu tekjurnar til hliðar hafa neytendur ákveðið að eyða þeim í staðinn.