Fjögur stóru tryggingafélögin hér á landi, Sjóvá, TM, VÍS og Vörður, högnuðust samtals um tæplega 9 milljarða króna á síðasta ári. Hagur þeirra vænkaðist umtalsvert frá fyrra ári er samanlagður hagnaður nam nærri 4 milljörðum króna. Afkoma síðasta og þar síðasta árs er þó óveruleg í samanburði við tvö árin þar á undan, heimsfaraldursárin 2020 og 2021.

Eins og þekkt er skiptist meginstarfsemi tryggingafélaga í tvennt, annars vegar vátryggingarekstur og hins vegar fjárfestingar. Á meðan faraldri stóð ríkti ástand sem hentaði tryggingafélögunum einstaklega vel – tjónum fækkaði vegna samkomutakmarkana um leið og blússandi gangur var á mörkuðum. Þetta endurspeglast í afkoma félaganna á þessum árum en árið 2020 nam samanlagður hagnaður tryggingafélaganna um 14,5 milljörðum króna og árið 2021 högnuðust þau alls um tæplega 26 milljarða. Til samanburðar nam samanlagður hagnaður ársins 2019 10 milljörðum.

Þegar horft er til hagnaðar hefur Sjóvá borið höfuð og herðar yfir önnur tryggingafélög undanfarin fimm ár. Þannig hefur félagið hagnast mest hvert einasta ár á tímabilinu 2019-2023 og nemur samanlagður hagnaður félagsins á tímabilinu um 26 milljörðum króna. Samanlagður hagnaður TM á tímabilinu nemur rúmlega 15 milljörðum króna og VÍS kemur skammt undan með tæplega fimmtán milljarða króna hagnað. Þá nemur hagnaður Varðar á tímabilinu um sjö milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.