Olíuiðnaðurinn í Noregi er drifkrafturinn í norsku efnahagslífi og áttunda hver króna af tekjum ríkisins á þessu ári kemur frá olíustarfseminni. Það má þakka olíuiðnaðinum að atvinnuleysi  er minna í Noregi en í nágrannalöndunum, eða 3% á móti 10%.

Þetta segir Per Terje Vold formaður landssamtaka olíuiðnaðarins í samtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv.

Fram kemur að 150.000 manns vinni í þessari atvinnugrein, að meðtöldum þeim sem starfa hjá undirverktökum, og ef tekin væru með þau fyrirtæki sem þjóna greininni á víðari grundvelli gætu ársverkin verið 250.000.

Á árinu 2008 nam fjárfesting í norska olíuiðnaðinum 124 milljörðum norskra króna og búist er við að sú fjárhæð hækki í 145 milljarða á þessu ári.

Ef halda á dampi í þessari atvinnugrein þarf stöðugt að leita að nýjum olíulindum samhliða því að hinar eldri þorna upp. Þannig er áætlað að helmingur af þeirri olíu sem Norðmenn munu dæla upp árið 2030 komi úr lindum sem ekki eru þekktar í dag. Þess vegna hafa talsmenn olíuiðnaðarins lýst áhuga á að færa sig norðar með ströndum Noregs, meðal annars á Lófót-svæðið.

Áætlað er að fjárfesta fyrir 380 milljarða króna í greininni á næstu 10 árum.