Tekjur flugfélagsins Norlandair, sem er með höfuðstöðvar á Akureyri, drógust lítillega saman milli áranna 2022 og 2023 og námu um 1,8 milljörðum króna. Flugfélagið gerir ráð umtalsverðum tekjuvexti í ár eftir að hafa tekið við umsjón sjúkraflugs í landinu um síðustu áramót og að veltan verði í kringum 3 milljarðar í ár.

„Rekstur félagins gekk þokkalega á árinu. Tekjur félagsins drógust lítillega saman einkum vegna vélabilana,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi. „Gert er ráð fyrir að rekstur félagsins á árinu 2024 verði heldur betri en hann var á árinu 2023.“

Norlandair sinnir sérhæfðu leiguflugi á Grænlandi auk þess að fljúga innanlands í áætlunarflugi á minni flugvelli. Félagið tók við sjúkraflugi innanlands til næstu þriggja ára.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Norlandair dróst saman úr 233 milljónum í 50 milljónir milli ára. Hagnaður eftir skatta hjá flugfélaginu nam 9 milljónum í fyrra samanborið við 186 milljónir árið áður.

Fjárfestu í flugflotanum fyrir einn milljarð

Eignir Norlandair voru bókfærðar á 2,1 milljarð í árslok 2023 samanborið við 1,6 millarða ári áður. Félagið fjárfesti í flugvélum, hreyflum og öðrum búnaði fyrir hátt í einn milljarð í fyrra sem skýrist að stórum hluta af sjúkrafluginu. Félagið er með 3 Twin-Otter og 3 King Air flugvélar í rekstri.

Eigið fé flugfélagsins nam tæplega 1,1 milljarði og eiginfjárhlutfall þess var um 53% í lok síðasta árs.

Í gær var tilkynnt um að KEA hefði stækkaði hlut sinn í Norlandair um tæplega 21%, úr 22% í 43%. Jafnframt hefði Air Greenland aukið við hlut sinn í flugfélaginu.

Friðrik Adolfsson, Kaldbakur og Mýflug að selja eignarhluti sína voru á söluhliðinni. Friðrik lét af störfum sem framkvæmdastjóri Norlandair um síðustu áramót en Arnar Friðriksson tók við stöðunni.