NRK, norska ríkissjónvarpið, hefur fest kaup á þáttaröðinni Pressu eftir Óskar Jónasson og Sigurjón Kjartansson, sem sýnd var á Stöð 2 snemma á þessu ári, segir í tilkynningu.

Það var DR Medier Internationalt Salg dreifingarfyrirtæki danska ríkissjónvarpssins sem sá um söluna fyrir hönd Sagafilm, sem framleiddi þættina fyrir Stöð 2.

Þættirnir sem hlutu frábæra dóma þegar þeir voru sýndir hér á landi voru aðalnúmer DR international í flokknum leiknir spennuþættir á sýningunni MIPCOM sem haldin var í Cannes í Frakklandi í október, segir í tilkynningunni.

„Með tilkomu sjónvarpssjóðs Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og 14% endurgreiðslu Iðnaðarráðuneytisins vegna kvikmyndagerðar hefur skapast svigrúm til að framleiða gæðaefni sem stenst samkeppni við þáttagerð nágrannalanda okkar,“ segir Kjartan Þór Þórðarson, framkvæmdastjóri Sagafilm, í fréttatilkynningu.

„Áhugi íslenskra sjónvarpsstöðva á íslenskri framleiðslu hefur stóraukist og vona ég að sú þróun sem átt hefur sér stað undanfarið muni halda áfram þrátt fyrir ástandið í efnahagsmálum,“ segir hann.