Talið er að norræn matargerðarlist geti orðið ein sú vinsælasta í heimi. Hún hefur um nokkurt skeið notið mikillar hylli, sem sést best á því hve mikla athygli verkefnið Ný norræn matargerðarlist hefur vakið. Þetta metnaðarfulla verkefni er einmitt nú í sviðsljósinu á alþjóðlegri matarhátíð í Reykjavík.

Í tilkynningu vegna matarhátíðarinnar segir að það sé aðallega tvennt sem hefur aukið vinsældir norrænnar matargerðar, að mati Eivind Hålien, eins af fjórtán sendiherrum sem tilnefndir voru í tengslum við Nýja norræna matargerðarlist.

-Okkur hefur tekist að vekja mikla athygli á ferskum og hreinum hráefnum frá Norðurlöndum, til dæmis í Bocuse d’Dor keppninni. Norræn matargerðarlist hefur auk þess fengið vind í seglin vegna þess árangurs sem norrænir matreiðslumenn hafa notið á alþjóðavettvangi og þeirrar færni sem þeir hafa sýnt, segir Eivin Hålien sem sat fyrir svörum á blaðamannfundi í Norræna húsinu í Reykjavík á miðvikudag.

Ný norræn matargerðarlist er nú þegar mjög sýnileg utan Norðurlanda, ekki síst í fjölmiðlum og í veitingahúsageiranum. Talið er að norræn matargerðarlist verði meðal þeirra vinsælustu í heimi á næstu árum, segir sjálfur Ferran Adrià, yfirmatreiðslumaður á hinu fræga veitingahúsi El Bulli á Spáni.

Norræna ráðherranefndin, samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlandanna, ýtti verkefninu Ný norræn matargerðarlist úr vör haustið 2006. Markmiðið þess er m.a. að vekja athygli á norrænni matarmenningu og gera hana sýnilegri á heimskorti matargerðarlistarinnar.