Útsendingar sjónvarpsstöðvarinnar iSTV fara í loftið á þjóðhátíðardaginn, 17. júní næstkomandi. Sigurjón Haraldsson, einn forsvarsmanna stöðvarinnar, segir í samtali við Fréttatímann í dag að stöðin muni ekki framleiða eigið efni heldur verða efnisveita fyrir aðra framleiðendur. Stöðin verður ekki með eigið stúdíó heldur sendir út efni frá öðrum. Hann bendir á að samkeppnin sé mikil og ekki allir sem komi efni sínu að hjá stóru stöðvunum. Jón Emil Árnason er sjónvarpsstjóri iSTV, Guðmundur Týr Þórarinsson dagskrárstjóri og Bonni ljósmyndari markaðsstjóri.

Í Fréttatímanum er sömuleiðis fjallað um leit forsvarsmanna Konunglega kvikmyndafélagsins, sem rekur sjónvarpsstöðvarnar Miklagarð og Bravó, að hlutafé. Þar hefur fastráðnu starfsfólki verið sagt upp, ellefu manns, framkvæmdastjóra, fjármálastjóra og fleirum.

Sigurjón segir öðru máli gegna um iSTV en sjónvarpsstöðvar Konunglega kvikmyndafélagsins. „Við erum með mjög litla yfirbyggingu og engan kostnað við stúdíó og þess háttar,“ segir Sigurjón sem bendir á að rekstrargrundvöllurinn verði sala auglýsinga.

„Við sendum ekki út hvað sem er en þetta er hins vegar frábært tækifæri fyrir fólk sem hefur áhuga á þáttagerð og hef- ur verið að vinna að eigin efni,“ segir hann. Hægt verður að horfa á útsendingar stöðvarinnar í gegnum myndlykla Símans og Vodafone og á netinu.