Morten Lund, sem varð margmilljarðamæringur þegar hann og meðfjárfestar hans seldu Skype til e-Bay árið 2005, tapaði öllu því sem hann átti eftir af fé á Nyhedsavisen.

Þetta kemur fram á bloggsíðu Lunds en þar segist hann hafa verið of bjartsýnn og rómantískur og hafi ekki getað séð fyrir sér þá svartsýni að allt gæti farið svona illa á svona skömmum tíma.

Í bloggi Lunds kemur fram að hann hafi lagt nærri tvo milljarða íslenskra króna í Nyhedsavisen og að hann hafi fengið það fé að láni.

„Það var misráðin ákvörðun,“ skrifar Lund og segir jafnframt að nú sé hann að reyna að koma undir sig fótunum fjárhagslega á nýjan leik.

„Mínir eigin peningar eru farnir,“ skrifar hann.