Nýherji kynnti í dag uppgjör á fyrsta ársfjórðungi 2015 í Kauphöll. Heildarhagnaður nam 41 milljón króna og dróst lítillega saman milli ára, en hann var 56 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Tekjuvöxtur fyrirtækisins nam 14,1% miðað við sama tímabil í fyrra. Vöru- og þjónustusala nam 3.263 milljónum króna á árinu, en það er nokkru meira en ári fyrr þegar hún nam 2.858 milljónum króna.

EBITDA félagsins nam 225 milljónum króna og var 6,9% hærri en ári fyrr þegar hún nam 191 milljón króna. Rekstrarhagnaður nam 147 milljónum króna og framlegð nam 808 milljónum króna.

„Rekstur samstæðu Nýherja gekk vel á fyrsta ársfjórðungi og öll félög samstæðunnar skiluðu hagnaði. Samstæðan hefur nú skilað heilbrigðum hagnaði 5. ársfjórðunginn í röð, sem sýnir í reynd aukinn stöðugleika í rekstrinum. Töluverður tekjuvöxtur var frá sama tímabili í fyrra, sérstaklega hjá Nýherja og Tempo. Afkoma nú er lítillega yfir áætlunum. Við vinnum áfram að því að festa nýtt skipulag sem tók gildi síðasta haust í sessi og ná þeim markmiðum sem félagið setti sér um einfaldara skipulag, skilvirkara sölustarf og bætta þjónustu,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja.

Árshlutareikninginn má sjá hér.