Sjávarútvegsfyrirtækið Icelandic Group hefur valið Nýherja til þess að hýsa tölvukerfi móðurfélagsins. Nýherji annast rekstur á miðlægum búnaði Icelandic á Íslandi í kerfisrými sem er með ISO öryggisvottun frá British Standards Institution á Englandi (BSI-UK), að því er fram kemur í tilkynningu.

Í tilkynningunni er haft eftir Gunnari Zoëga, framkvæmdastjóra Tæknisviðs Nýherja, að Icelandic eigi sér traustar rætur í íslensku atvinnulífi, hafi selt sjávarfang til alþjóðlegra markaða um langt skeið og byggt upp öfluga starfsemi í Asíu og Evrópu. Það sé því mikið ánægjuefni að eiga kost á að þjónusta áfram vaxandi alþjóðlegt fyrirtæki sem er um leið órjúfanlegur hluti af íslenskri viðskiptasögu.

Icelandic Group er með starfsemi í átta löndum víða um heim og hjá því starfa um 1.900 starfsmenn. Hjá Nýherja starfa hátt í 300 sérfræðingar í upplýsingatækni.