Nýi Glitnir hefur birt á heimasíðu sinni verklagsreglur sem skýrir hvernig bankinn meðhöndlar fullnustu krafna gagnvart fyrirtækjum í rekstrarerfiðleikum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni ern þar eru þessar viðmiðunarreglur sagðar koma í framhaldi af þeim vinnuramma sem bankinn kynnti til sögunnar um miðjan desember þar sem fjallað var um úrlausnir fyrir fyrirtæki í tímabundnum greiðsluerfiðleikum.

„Vinnurammi þessi er hluti af þeirri stefnu Nýja Glitnis að koma til móts við tilmæli ríkisstjórnarinnar frá 2. desember 2008 um aðgerðir til að bregðast við þeim tímabundna vanda sem íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir í kjölfar fjármálakreppunnar og kemur í framhaldi af þeim verklagsreglum sem við kynntum um miðjan desember,“ segir í tilkynningu bankans.

„Þessi leiðbeinandi vinnurammi útskýrir þá nálgun sem Nýi Glitnir hefur haft að leiðarljósi við úrlausn mála fyrirtækja sem eiga við alvarlegan rekstrarvanda að ræða. Starfsmenn Nýja Glitnis leggja ríka áherslu á faglega og sanngjarna úrlausn þeirra mála sem upp kunna að koma í fjármálum viðskiptavina bankans.“