Hluthafafundur FL Group sem verður haldinn í næstu viku mun kjósa félaginu nýja stjórn eftir miklar breytingar á eignarhaldi í fyrirtækinu. Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group sagði í dag að mjög öflugir hluthafar kæmu nú að fyrirtækinu og vildu taka þátt í uppbyggingu þess og áframhaldandi útrás á alþjóðlegan markað. Í hópi nýrra hluthafa séu aðilar með mikla og verðmæta reynslu af útrásarverkefnum.

26,5% hlutir Saxbygg hf. og 1% hlutur Mannvirkis ehf. hafa verið seldir Landsbanka Ísalands, sem hefur aftur gert framvirkan samning um sölu þessara hluta til nýrra eigenda og eldri hluthafa. Þeirra á meðal eru:

· Katla Holding sem eignast 17,68%
· Baugur Group sem eignast 2,46% til viðbótar 7,92% sem félagið hafði áður gert framvirkan samning um að kaupa
· Eignarhaldsfélagið Oddaflug sem eignast 5% til viðbótar við 30,54% sem það átti áður í félaginu.

Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group sagði í dag í tylkynningu frá félaginu: ?Framundan er nýr kafli í vexti og þróun FL Group. Með nýjum fjárfestum, sem vilja taka þátt í að leiða félagið áfram,verða breytingar á stjórn þess sem kynntar verða eftir hluthafafund að viku liðinni. Fjárfestar sem komu að félaginu fyrir ári, og stjórnin sem þá tók við, hefur verið afar samhentur og góður hópur. Við höfum saman náð miklum árangri og miðað við gengi félagsins í lok dags 30. júní hefur markaðsverðmæti félagsins hækkað um 93,4% á einu ári. Einstaka fjárfestar hafa nú ákveðið að innleysa góðan hagnað og einbeita sér að öðrum verkefnum og nýr hópur kemur að félaginu með það að markmiði að halda áfram uppbyggingu og vexti.

Mörg spennandi verkefni eru framundan hjá FL Group, bæði í fjárfestingastarfsemi, í flugvélaviðskiptum og í hefðbundinni starfsemi félagsins í flugi og ferðaþjónustu. Sem dæmi má nefna að félagið hefur átt í viðræðum við aðaleiganda easyJet um nánara samstarf, mikill vöxtur er í farþegaflugi Icelandair, spennandi framtíð í fraktflugi, m.a. með kaupunum á Bláfugli og mikil sókn inn á Asíumarkað í flugvélaviðskiptum. Við erum með mörg járn í eldinum og við munum vinna hratt á næstu vikum og mánuðum í þeim tækifærum sem blasa við um þessar mundir".