*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 6. júní 2018 15:53

Nýir meirihlutar í farvatninu víða

Sjálfstæðismenn semja við Framsókn í bæði Hafnarfirði og Kópavogi, en áfram með VG í Mosfellsbæ með áherslu á fjölgun íbúða.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Um hádegisbilið í gær skrifuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra í Hafnarfirði um myndun meirihluta í bænum að því er Morgunblaðið segir frá. Þetta er í fyrsta sinn í tvo áratugi sem Framsóknarflokkurinn fær mann kjörinn í bænum.

Rósa Guðbjartsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og verðandi bæjarstjóri í Hafnarfirði segir flokkana sammælast um áherslur á málefni eldri borgara og barnafjölskyldna, auk ábyrgs reksturs og aðhalds í útgjöldum. Jafnframt verður systkinaafsláttur á leikskólum aukinn ásamt því að bæta starfskjör þar.

Ármann Kr. vildi áfram semja við Theodóru.

Jafnframt eru í gangi viðræður sömu flokka í Kópavogi, jafnvel þó bæjarstjórinn, Ármann Kr. Ólafsson hafi áður sagt í samtali við Viðskiptablaðið að svo yrði ekki.

„Þetta eru viðræður sem meirihluti bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks samþykkti en líkt og ég hef áður sagt vil ég halda samstarfi okkar við Bjarta framtíð áfram,“ segir Ármann Kr., en hann hefur þó sagst vera bjartsýnn á að það takist að mynda meirihluta með Framsóknarflokknum.

Fulltrúi sameiginlegs framboðs Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, Theodóra Þorsteinsdóttir, var áður fulltrúi fyrrnefnda flokksins og myndaði bæjarstjórnarmeirihlutann síðasta kjörtímabilið.

Fjórða kjörtímabilið með VG í Mosó

Sjálfstæðismenn og Vinstri græn hafa myndað meirihluta í Mosfellsbæ frá árinu 2006, sem haldið var áfram með þó fyrrnefndi flokkurinn hafi náð hreinum meirihluta í kosningunum 2014. Nú hefur nýr málefnasamningur verið gerður milli flokkanna, þar sem lögð verður áhersla á að aukið framboð húsnæðis og lóða.

Loks var skrifað undir málefnasamning síðastnefndu flokkanna, auk framboðs Samfylkingar og óháðra í borgarbyggð. Sammæltust flokkarnir um að semja við núverandi sveitarstjóra, Gunnlaug Júlíusson um að halda áfram störfum, ásamt áherslu á bætta þjónustu og búsetuskilyrði í bænum og uppbyggingar innviða.

VIðreisn fyllir í skarð Bjartrar framtíðar

Loks eru enn viðræður núverandi meirihlutaflokka í Reykjavík í gangi, ásamt með Viðreisn sem kæmi þá í stað Bjartrar framtíðar sem ekki bauð fram í borginni.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá féllu meirihlutar í 26 sveitarfélögum í kosningunum á laugardaginn fyrir einni og hálfri viku, en víða liggja nú þegar fyrir nýir meirihlutar.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is