Nýja Kaupþing, stærsti lánardrottinn Pennans, keypti innlendan rekstur félagsins af skiptastjóra félagsins í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Kaupþingi en þar kemur fram að þetta hafi verið gert til að tryggja áframhaldandi rekstur og viðhalda um 300 störfum hér á landi.

„Penninn var of skuldsettur til að geta haldið áfram rekstri að óbreyttu,“ segir í tilkynningunni.

„Með þessum ráðstöfunum er félagið í mun betri stöðu til að mæta núverandi efnahagsaðstæðum og ættu langflestir starfsmenn að halda vinnu vegna kaupanna.“

Þá kemur fram að félagið er nú að ræða við birgja og samstarfsaðila um yfirtöku skuldbindinga þeirra gagnvart Pennanum og er stefnt að því að ljúka þeim viðræðum á næstu  vikum.