Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ásamt öðrum fagfjárfestum, hafa gert samning um kaup á hlutafé í fyrirtækinu cooori ehf. Fyrirtækið vinnur að þróun veflægs hugbúnaðar til tungumálanáms sem byggir á nýjustu tækni í máltöku- og kennslufræðum og notar gervigreind til að aðlaga kennsluna að hverjum einstaklingi fyrir sig og hámarka árangur.

cooori ehf. er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað af hópi frumkvöðla undir forystu Arnars Jenssonar, Þorsteins G. Gunnarssonar, Björns Kristinssonar og Eyþórs Eyjólfssonar. Stofnendur cooori mynda teymi með sérþekkingu á sviði málvísinda, hugbúnaðargerðar og stjórnunar og er markmið þeirra að birta fyrstu útgáfu hugbúnaðarins í haust. Í fyrstu útgáfunni er enskumælandi fólki hjálpað að læra japönsku en önnur tungumálapör munu fylgja í kjölfarið á komandi ári. Auk þess að vera veflausn er kerfið einnig aðgengilegt í gegnum snjallsíma og spjaldtölvur.

"Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að fjárfesta í góðu teymi með góða vöru. Við trúum því að markaður fyrir tungumálanám á eftir að vaxa mikið og með réttri markaðssetningu hefur cooori alla burði til að verða leiðandi á þessu sviði,“ segir Helga Valfells, framkvæmdarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.