„Draumur okkar er að nýsköpunarvikan verði festival, líkt og við þekkjum svo vel með Iceland Airways, að það verði alls konar viðburðir, jafnt hefðbundnir og óhefðbundnir,“ sögðu Edda Konráðsdóttir og Melkorka Magnúsdóttir, tveir af þremur stofnendum Nýsköpunarvikunnar, í spjalli sínu #StartupTalksOnIce á Clubhouse í morgunsárið. Í spjalli sínu voru fyrstu viðburðir Nýsköpunarvikunnar kynntir til sögunnar.

Þetta árið verður látið reyna á hve teygjanlegt hugtak vika getur verið en alls verður veislan átta dagar. Setningarhátíðin fer fram þann 26. maí næstkomandi og verða ýmsir viðburðir víða um borg, og í streymi, fram til 2. júní.

„Við höfum reynt eftir fremsta megni að skapa viðburði sem eru „covid-friendly“ þannig það verða bæði viðburðir innan- og utandyra. Við höfum átt í miklum samskiptum við samskonar hátíðir á Norðurlöndunum og rætt við þau hvernig hægt sé að bregðast við þessum nýja veruleika,“ sagði Melkorka.

Hafnarrölt með Marel og hönnunarkeppni með Össuri

Fyrstu viðburðirnir voru jafnframt kynntir til sögunnar. Nefndu þær Edda meðal annars tvo viðburði sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun standa fyrir, annars vegar um verðmat sprotafyrirtækja og mannauðsmál sprotafyrirtækja. Hið sama má segja um göngutúr með Marel um Reykjavíkurhöfn þar sem nýsköpun innan sjávarútvegsins verður til umræðu.

„Við byrjum hátíðina degi eftir setningarathöfn með því að skella okkur í sjósund í Nauthólsvíkinni. Einn af þeim viðburðum sem ég er síðan hvað spenntust fyrir er síðan hönnunarkeppni sem Össur og Listaháskóli Íslands hafa staðið saman að um hönnun á hluta gervifótar. Sigurvegari keppninnar fær að kynna vinningshugmyndina á hátíðinni,“ sagði Edda.

Melkorka kynnti enn fremur annan viðburð til sögunnar en þar er á ferð hraðstefnumót með sprotum í eigu Háskóla Íslands. Miðstöð hátíðarinnar verður í nýsköpunarhúsinu Grósku í Vatnsmýrinni en viðburðir munu verða um alla borg. Hluti þeirra verður háður fjöldatakmörkunum þannig að nauðsynlegt verður að skrá sig á þá, hafi fólk áhuga á að mæta í persónu, en að auki verður boðið upp á streymi þar sem kostur er á því.

Vikulegt spjall á Clubhouse

„Hafi fólk og fyrirtæki áhuga á hátíðinni mæli ég með því að þið kíkið á heimasíðuna og skoðið viðburðina sem eru í boði. Þar er að vísu aðeins að finna fyrsta skammtinn af því sem er á döfinni. Ef fólk vill standa fyrir viðburði þá er minnsta málið að hafa samband við okkur og við getum verið innan handar um hvernig er hægt að nýta þetta „platform“. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því hvers vegna fyrirtæki vilja taka þátt, sum vilja verkja athygli á sér, önnur hafa hug á að ráða og enn önnur að kynna eitthvað nýtt. Þar getum við verið innan handar,“ sagði Edda.

Þriðji stofnandi hátíðarinnar er Freyr Hólm Ketilsson. Fram að nýsköpunarviku hafa Edda og Melkorka boðað vikulegt spjall, hvern þriðjudag klukkan 10.00 að íslenskum tíma, á Clubhouse þar sem þær munu ræða ýmislegt sem tengist nýsköpun. Yfirskrift spjallsins í næstu viku verður „Raising funds and raising babies“ þar sem þátttakendum gefst kostur á að rabba saman um hvernig það hefur gengið að ná jafnvægi í þessum tveimur þáttum lífsins.

Nánari upplýsingar um Nýsköpunarvikuna má síðan finna með því að smella hér. Hátíðin er árleg en í fyrra var henni frestað frá vori fram til hausts sökum faraldursins. Markmið hátíðarinnar er þríþætt, að vekja athygli á nýsköpun sem á sér stað innan fyrirtækja hér á landi, koma á samtali milli frumkvöðla, sprota og almennings og að endingu að skapa vettvang fyrir erlenda aðila til að kynnast íslenskum sprotum og koma á tengslum.