Nýskráningum einkahlutafélaga fjölgaði um 17% á síðastliðnu ári samanborið við árið þar á undan. Í ágúst voru nýskráningar einkahlutafélaga 191. Alls voru 2.649 ný einkahlutafélög skráð frá september 2015 til ágúst 2016, samanborið við 2.259 á 12 mánuðum þar á undan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, en fjölgunin þar var 48% á síðustu 12 mánuðum.

Gjaldþrot fyrirtækja

Gjaldþrotum fyrirtækja fjölgaði um 19% á síðustu 12 mánuðum frá september 2015 til ágúst 2016, samanborið við síðasta ár þar á undan. Alls voru 867 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, borið saman við 729 á fyrra tímabili.

Gjaldþrotum fjölgaði hlutfallslega í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum þar sem þeim fjölgaði úr 124 í 183 frá fyrra tímabili, eða um 48%.