Nú um áramótin hóf dreifingarfyrirtækið Distica hf. formlega starfsemi og tók þá við dreifingu á vörum Actavis á Íslandi. Starfsmenn fyrirtækisins eru tæplega 50 talsins. Áætluð velta á fyrsta starfsári eru rúmir átta milljarðar króna.

Í frétt frá fyrirtækinu kemur fram að Distica hf. er nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í innflutningi, vörustjórnun og dreifingu á lyfjum, heilsuvörum, dýraheilbrigðisvörum, sem og vörum fyrir heilbrigðisþjónustu og rannsóknarstofur. Fyrirtækið byggir á 50 ára reynslu í vörustjórnun og dreifingu, en starfsemi Distica var fram til síðustu áramóta hluti af Vistor hf.

Í fréttinni kemur fram að Distica mun sinna yfir 60% af lyfjadreifingu á Íslandi. Starfsstöð Distica er að Hörgatúni 2, Garðabæ.

?Við leggjum áherslu á að bjóða vörustjórnunar- og dreifingarlausnir fyrir fyrirtæki sem selja vörur sem krefjast sérhæfðrar meðhöndlunar, til að mynda lyf og aðrar heilbrigðisvörur,?  segir Gylfi Rútsson, framkvæmdastjóri Distica í tilkynningunni og bætir við: ?Starfsemin er vottuð samkvæmt ISO 9001 gæðastaðlinum og hefur það skilað sér í mjög markvissri starfsemi og mikilli ánægju og ávinningi viðskiptavina.?

Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að það er hið stærsta sinnar tegundar hér á landi og hið eina á sínu sviði sem hlotið hefur gæðavottun samkvæmt ISO 9001 staðlinum.