Í gær var tekin fyrsta skóflustungan að nýju flugskýli Icelandair sem áætlað er að verði tekin í notkun síðla árs 2017 á Keflavíkurflugvelli. Verður það 27 metra hátt með 10.500 fermetra grunnflatarmál, hurðin verður 18 metra há og mun hún opnast mest um 65 metra.

Vilja sinna viðhaldi hér á landi

Flugskýlið verður viðbygging við hlið núverandi flugskýlis og mun hýsa lager, versktæði, skrifstofur og mötuneyti auk þess að geta hýst tvær Boeing 757 vélar. Vegna vaxtar hjá Icelandair hefur rýmið sem félagið hefur til viðhalds á Keflavíkurflugvelli ekki annað þörf svo flugfélagið hefur í auknum mæli þurft að senda vélar sínar erlendis í viðhaldsskoðanir og breytingar.

Með byggingu skýlisins markar félagið þá stefnu að sinna sem mestu af viðhaldi flugflota síns hér á landi segir í fréttatilkynningu félagsins. Nú starfa um 300 manns í flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli en búast þeir við að heildarfjöldi starfa sem skapist með framkvæmdinni verði á annað hundrað.