Viðskiptaráð Íslands telur mikilvægt að íslenskum fyrirtækjum verði gert kleift að færa uppgjör sitt í erlendum gjaldmiðli án afskipta opinberra aðila, að því er fram kemur í yfirlýsingu.

„Það væri óábyrgt að spyrna við fæti hvað uppgjör í erlendum gjaldmiðlum varðar og stuðla þannig að verra rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum samanburði," segir í yfirlýsingunni.

Að mati Viðskiptaráðs eru uppgjör í erlendum gjaldmiðlum eðlilegur fylgifiskur alþjóðavæðingar, en Ísland er nú þátttakandi á markaði sem er margfalt stærri en hagkerfið í heild.

Aukin alþjóðavæðing íslensks hagkerfis hefur leitt til þess að stór hluti tekna og fjármögnunar margra fyrirtækja er í erlendum gjaldmiðlun. Af þessum sökum skapa gengissveiflur íslensku krónunnar mikinn kostnað og óvissu í rekstri viðkomandi fyrirtækja. Til að draga úr kostnaði hafa ýmis fyrirtæki leitað heimildar ársreikningaskrár til að færa uppgjör í erlendan gjaldmiðil. Mörg þeirra hafa þegar fengið þessa heimild en af einhverjum ástæðum lúta fjármálafyrirtæki ekki sömu lögmálum í þessu málefni, segir í yfirlýsingunni.

Til að styrkja frekar stöðu íslenskra fyrirtækja og gera þau að fýsilegri valkosti fyrir erlenda fjárfesta er mikilvægt að fyrirtækjum verði gert kleift að færa uppgjör sitt í erlendum gjaldmiðli - án afskipta hins opinbera.