Næsta kynslóð 4G er í startholunum hjá Símanum. Síminn hefur sett upp 4G senda sem ná yfir 200 Mb/s hraða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Símanum.

200 Mb/s er um hemlingi meira en eftir uppfærslu senda Símans úr 100 Mb/s í 150 fyrr á árinu og því ríflega 100% meiri hraða en var á kerfum Símans fyrir ári.

Haft er eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans, að viðskiptavinir Símans geta náð hraða sem hefur ekki náðst áður hér á landi. Hún segir að það geri upplifunina á netum Símans enn betri.

„Sérfræðingar Símans hófu prófanir með birgjanum okkar Ericsson í nóvember á enn öflugra 4G neti. Þessir sendar flokkast til LTE Advanced eða LTE+/4G+ og styðja yfir 200 Mb/s. Við búumst við enn meiri 4G hraða þegar fram í sækir og að við náum 300 mb/s á sendum okkar á næsta ári,“ er einnig haft eftir Gunnhildi.

„4G stöðvar Símans eru nú yfir 200 um allt land og útbreiðslan nær til 95,5% landsmanna. Þrjú ár voru nú í nóvember frá því að fyrstu 4G stöðvar Símans voru settar upp. Nú fyrir mánaðamótin bættust fjórar nýjar 4G stöðvar við og var ein þeirra sú tvö hundraðasta í röðinni. Sú stöð stendur við Ásvelli í Hafnarfirði,“ er einnig tekið fram í tilkynningunni frá Símanum.