Reynslumiklir stjórnendur verða ráðnir til Iceland Healthcare sem hyggst setja upp sjúkrahús í Ásbrú. Í tilkynningu kemur fram að þeir hafa unnið með virtum alþjóðlegum aðilum og má þar nefna; Otto Nordhus, Leif Ryd og Bjarne Semb. Otto er einn reynslumesti sérfræðingur Norðurlanda í veitingu heilbrigðisþjónustu milli landa og hefur átt gott samstarf við yfirvöld á Norðurlöndum og Bretlandi um árabil.

Bjarne er fyrsti prófessor Norðurlanda í hjartalækningum og tók þátt í fyrstu gervihjartaskiptaaðgerð í Evrópu.  Þá er Leif prófessor í bæklunarskurðlækningum við Karólinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi.

Verkefnið er unnið í góðu samstarfi við Heilsufélag Reykjaness, en að því félagi standa sveitarfélögin  í Garði, Vogum, Sandgerði og Reykjanesbæ, auk Keilis, Bláa lónsins og Kadeco. Heilsufélagið hefur það hlutverk að vinna með hagsmunaaðilum að uppbyggingu heilsutengdrar starfsemi á Reykjanesi segir í tilkynningu.

„Verkefnið er klárlega eitt af mest spennandi nýsköpunarverkefnum landsins um þessar mundir. Þá mun það einnig mynda sterka kjölfestu í uppbyggingu  og þróun Ásbrúar. Heilsuklasi Ásbrúar mun hér með taka á sig sterkari mynd, sem laða mun að sér enn fjölbreyttari fyrirtæki á sviði meðferða, lækninga, heilsueflingar, rannsókna, menntunar og framleiðslu heilsutengdra afurða af ýmsum toga svo dæmi séu tekin," segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco í tilkynningu.