Viðskiptajöfnuður mældist óhagstæður um 9 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við rúmlega 18 milljarða króna óhagstæðan jöfnuð á fjórðungnum á undan.

Þetta kemur fram í bráðabirgðayfirliti Seðlabankans  um greiðslujöfnuð við útlönd.

Þar kemur fram að afgangur af vöruskiptum við útlönd var 32,5 milljarðar króna en afgangur af þjónustuviðskiptum var 13,5 milljarðar króna. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 53 milljarða króna.

Fram kemur að halla á þáttatekjum á öðrum ársfjórðungi má eins og áður rekja til innlánsstofnana í slitameðferð. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 40,6 milljarða króna og tekjur 16,9 milljarða króna. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var neikvæður um 31,4 milljarða króna en viðskiptajöfnuður jákvæður um 14,8 milljarða króna.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 8.206 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.917 milljörðum króna. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 5.711 milljarða og lækkaði nettóskuldir um tæpa 189 milljarða króna á milli ársfjórðunga.

Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.487 milljörðum króna og skuldir 3.048 milljörðum króna. Hrein staða var því neikvæð um 561 milljarð króna að þeim undanskildum.