VR, Flóabandalagið og Landssamband íslenskra verslunarmanna fara nú yfir tilboð sem Samtök atvinnulífsins lögðu fram í kjaraviðræðum milli aðilanna á samningafundi í morgun, en félagsmenn þessara félaga telja samtals um 55 þúsund manns. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir í samtali við fréttastofu RÚV að margt jákvætt sé í tilboðinu .

„Það er bara ýmislegt í þessu sem að við viljum skoða og horfum á með jákvæðum hætti og síðan er bara að sjá hvort að það virki þegar við erum búin að reikna þetta allt út, hvort að niðurstöðurnar eru jafnmyndarlegar og menn vilja vera láta. Það er ekki alveg víst að svo sé þegar við erum búin að reikna dæmið út til enda,“ segir Ólafía við RÚV.

Hún kveðst hins vegar frekar bjartsýn. „Við verðum að fara að vinna þetta mál með þeim hætti að það leiði hér til einhverra samninga. Annað á bara ekki að vera í boði,“ segir hún.