„Okkur finnst ekkert gaman að kæra forstjóra Mjólkursamsölunnar til Samkeppniseftirlitsins. Það er ekkert gleðiefni,“ segir Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú, sem hefur kært Mjólkursamsöluna (MS), forstjórann Einar Sigurðsson og Eirík Sigurðsson, formann stjórnar MS, vegna brota á samkeppnislögum. Kú krefst endurgreiðslu á 16 milljónum króna vegna ofgreiðslu síðastliðin tvö ár. Brot á þeim lögum sem vísað er til í kærunni geta varðað allt að sex ára fangelsi.

Ólafur leggur áherslu á að málið sé allt hið dapurlegasta.

„Það er sorglegt að þurfa að grípa til þessa ráðs og dapurlegt fyrir okkur að þurfa að kæra kollega okkar sem við ættum að vera í góðu samstarfi við um uppbyggingu á þessum markaði. Við ættum frekari að eiga jákvæð samskipti við þá,“ segir hann. Á sama tíma segir Ólafur það ólíðandi hvernig stjórnendur MS hafi gengið fram og reynt að bola öðrum keppinautum út af markaðnum í skuggga undanþágu frá samkeppnislögum.

Önnur staða hér en á hinum Norðurlöndunum

„Það er sérstök staða að reyna að keppa við fyrirtæki sem annars vegar er verndað af tollamúrum og undanþegið samkeppnislögum að stórum hluta en skeytir samt ekkert um það að brjóta á okkur með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína með því að rukka okkur um mun hærra endurgjald. Þetta er óeðlileg mismunum,“ segir Ólafur og vísar til þess að á hinum Norðurlöndunum fái minni mjólkursamlög fái ívilnandi verð upp að ákveðinni stærð í keppni við þá sem eru markaðsráðandi. Því til viðbótar er fylgst grannt með markaðnum úti og ráðandi fyrirtæki sektuð verði þau uppvís að brotum á samkeppnislögum.

„Hér er þessu algjörlega öfugt farið og neytendur líða fyrir það,“ segir Ólafur M. Magnússon.