Ölgerðin hefur keypt vörumerki Mjólkursamsölunnar á sviði ávaxtasafa. Þetta eru Flórídana ávaxtasafi, Tomma og Jenna ávaxtasafi og Íste. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins sem auk þess hefur kaup Ölgerðarinnar á Sól til skoðunar. Samið hefur verið um að Mjólkursamsalan pakki vörunum áfram.

Í tilkynningu vegna kaupanna segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, mikil sóknarfæri í sölu og markaðssetningu á ávaxtasöfum. „Þetta er holl og góð vara og mikil tækifæri í því að samþætta hollustu og þægindi fyrir fólk sem hugsar um heilsuna. Þessi hugsun hefur verið leiðandi í vöruþróun okkar undanfarin ár og verður áfram.“   Ölgerðin hefur aukið umsvif sín á sviði ávaxtasafa á undanförnum misserum og er nú orðið næststærsta fyrirtæki landsins á því sviði. Fyrir nokkrum vikum var gengið frá kaupum á Sól ehf. Auk þess framleiðir Ölgerðin Frissa Fríska og Egils þykkni sem allir þekkja og flytur inn Feelgood ávaxtasafa, segir í tilkynningunni.