Ölgerðin hefur sameinað sína starfsemi undir eitt þak og um leið tekið nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar í notkun. Þess má geta að vöruhúsið eitt og sér gæti rúmað 16 milljón appelsínflöskur

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur nú sameinað alla starfsemi fyrirtækisins í nýtt húsnæði við Grjótháls segir í tilkynningu. Starfsemi Ölgerðarinnar undir merkjum Danól, Hressingar, Sólar og Gnóttar hefur verið á um það bil sjö stöðum í bænum en fær nú samastað undir einu þaki í húsi sem hýsir skrifstofur og vöruhótel.

Nýja húsið er með tæplega 13.000 fermetra botnplötu og er á fjórum hæðum. Vöruhúsið er um 8.400 fermetrar að flatarmáli en lofthæðin er allt að 17 metrar og því verða rúmmetrarnir um 93.000.

Er gott skápapláss í nýja húsinu?

Nýja vöruhús Ölgerðarinnar í Grjóthálsi er engin smásmíði, enda er þar tekið á móti 8 gámum af vörum á hverjum degi. Rekkar fyrir vörupalla teygja sig hæst í tæpa 17 metra og í hverjum rekka er pláss fyrir mörg hundruð palla. Ef allt geymsluplássið væri notað undir hálfs lítra appelsínflöskur mætti koma þar fyrir um það bil 16 milljón appelsínflöskum. Í vöruhúsinu er 300 palla kælir og frystir sem geymir 1200 palla í 23 gráðu frosti.