Í gær hækkaði verð á olíu umtalsvert samkvæmt öllum helstu mælikvörðum. Nymex October West Texas Intermediate vísitalan, sem mælir olíuverð í Bandaríkjunum, hækkaði um 3,98 dollara eða 8,8% og endaði í 49,20 dollurum á tunnuna við lokun markaða í gær. ICE October Brent, alþjóðleg vísitala um olíuverð sem skráð er í London, hækkaði um 4,10 dollara í viðskiptum gærdagsins eða um 8,2% og endaði í 54,15 dollurum á tunnuna. Frá fimmtudegi hefur verðið á olíu að jafnaði hækkað um allt að 25%.

Hækkunin hefur komið sér vel þar sem olíuverð hefur farið hríðlækkandi á síðustu mánuðum og hefur ekki verið lægra í sex og hálft ár.

Óljóst er hvað hefur nákvæmlega valdið hækkununum en í frétt Financial Times um málið er gefið í skyn að hækkunin sé vegna viðbragða fjárfesta við fréttum frá Opec um að samtökin ætli sér að grípa til aðgerða vegna lækkandi olíuverðs. Aðilar að Opec samtökunum framleiða fjórar af hverjum tíu tunnum af þeirri olíu sem framleidd er í heiminum og því hafa þau tíðindi töluverða vigt. Engu að síður gagnrýna fjárfestar að tónn samtakanna sé að vissu leyti of mildur og bitlaus.

Nánar er fjallað um málið á  vef Financial Times .