Sérfræðingar á markaði eru almennt ekki trúaðir á að reynt verði að fleyta íslensku krónunni í þessari viku.

Gert er ráð fyrir að Seðlabankinn komi með stefnuyfirlýsingu á fimmtudag eða föstudag í von um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ljúki afgreiðslu sinni á miðvikudag, enda hafa þeir sagt ætla að gefa slíka yfirlýsingu þegar lán sjóðsins væri í höfn, væntanlega með blaðamannafundi.

Sérfræðingar telja líklegt að beðið verði eftir peningum í gjaldeyrisforðann frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum lánveitendum áður en krónuflotið hefst fyrir alvöru.

„Þeir þurfa að hafa einhverja milljarða evra í vopnabúrinu því hlutirnir geta gerst afar hratt um leið og opnað verður fyrir fjármagnsflutninga. Fyrst gætu þeir raunar reynt að létta hömlum af öðrum gjaldeyrisviðskiptum en hreinum fjármagnstengdum viðskiptum, því Seðlabankinn hefur gefið í skyn að fleytingin verði gerð í áföngum. Tíminn líður hratt, og þeir verða að hafa hraðar hendur ef á að nást að fleyta krónunni að fullu fyrir jól - gæti þá annars orðið frá og með nýju ári," sagði einn sérfræðingur.

Mjög skiptar skoðanir eru um hvað gerist við endurflot krónunnar. Þó menn telji að ekki sé eins mikið fjármagn að bíða eftir að komast út og áður var talið þá sé óhjákvæmilegt að hún veikist talsvert fyrst eftir fleytingu en þeir finnast sem halda að evran verði komin niður í 130 krónur um mitt næsta ár.