„Mér finnst hæpið að hann hafi úthald lengi miðað við þessar forsendur en helst myndi ég vilja sjá lyfseðlafjölda hjá honum fara niður fyrir 30% þá er þetta örugglega búið. Hann tekur líklega á sig að vera launalaus eða launalítill einhverntíma en það gengur ekki til lengdar,“ sagði Framkvæmdastjóri Lyf og heilsu í tölvupósti til eigenda, sem eru Karl og Steingrímur Wernerssynir, þegar hann var að reyna að bola út samkeppnisaðila í lyfsölu á Akranesi.

Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að þessi og fleiri markaðsaðgerðir hafi falið í sér alvarleg brot á samkeppnislögum þar sem um var að ræða skipulagða atlögu gegn nýjum keppinauti sem hafði beinlínis að markmiði að raska samkeppni. Þarf Lyf og heilsa að greiða 130 Milljónir í sekt.

Gögn málsins sýna að mati Samkeppniseftirlitsins að Lyf og heilsa (L&H) urðu þess áskynja í lok ársins 2006 að fyrirhugað væri að opna nýtt apótek á Akranesi en L&h ráku á þessum tíma eina apótekið þar. „Ljóst er að L&h höfðu skýran ásetning til þess að koma í veg fyrir þessa nýju samkeppni m.a. með eftirfarandi aðgerðum," segir í niðurstöðu eftirlitsins. Þessi ásetningur birtist að mati eftirlitsins í eftirfarandi:

  • Fyrirsvarsmenn L&h höfðu samband við lyfjafræðinginn sem vann að stofnun AV og reyndu að fá hann til að hætta við opnun apóteks á Akranesi og gerast þess í stað starfsmaður L&h. Lyfjafræðingurinn hafnaði þessu tilboði.
  • Innan L&h var rætt um að vera fyrri til og opna annað apótek á Akranesi (lágvöruverðsapótek). Var sagt að þetta myndi „girða alveg fyrir aðra samkeppni hér“.
  • L&h beittu sér gagnvart Högum, eiganda Bónuss sem er í sama húsnæði og AV hafði tryggt sér sölupláss, í því skyni að hindra innkomu hins nýja keppinautar.
  • Í samskiptum við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið beittu L&h sér gegn því að AV fengi lyfsöluleyfi.

Gáfu „baráttuafslátt"

„Þessar aðgerðir dugðu ekki til að koma í veg fyrir að AV hæfi starfsemi og gripu L&h þá til markaðslegra aðgerða gegn keppinautnum. Fólust þær annars vegar í stofnun svonefnds vildarklúbbs sem var ætlað að tryggja að mikilvægir viðskiptavinir myndu ekki hefja viðskipti við AV. Hins vegar fólust aðgerðirnar í því sem L&h nefndu „baráttuafslætti“.

Greindi eigendum frá stöðunni

Um var að ræða verulega afslætti á mikilvægum lyfjum og voru þeir aðeins í boði á Akranesi. Umfang þessara afslátta var ákveðið með hliðsjón af fjárhagsstöðu AV sem L&h töldu veikburða keppinaut. Var tilgangur þessara aðgerða að hrekja hinn nýja keppinaut út af markaðnum. Framkvæmdastjóri L&h taldi í þessu samhengi í tölvupósti að AV „þolir þetta örugglega ekki lengi.“ Í öðrum tölvupósti framkvæmdastjórans til eigenda L&h sem sendur var 7. júlí 2007 var rætt um fyrirsvarsmann AV og aðgerðir gegn þessum nýja keppinauti og segir þar m.a.:

„Mér finnst hæpið að hann hafi úthald lengi miðað við þessar forsendur en helst myndi ég vilja sjá lyfseðlafjölda hjá honum fara niður fyrir 30% þá er þetta örugglega búið. Hann tekur líklega á sig að vera launalaus eða launalítill einhverntíma en það gengur ekki til lengdar.“," að því er fram á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins

Skipulögð atlaga að keppinauti

Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að umræddar markaðsaðgerðir hafi falið í sér alvarleg brot á samkeppnislögum þar sem um var að ræða skipulagða atlögu gegn nýjum keppinauti sem hafði beinlínis að markmiði að raska samkeppni. Telur Samkeppniseftirlitið að L&h hafi bæði misnotað markaðsráðandi stöðu sína á Akranesi og sameiginlega markaðsráðandi stöðu á höfuðborgarsvæðinu. Voru aðgerðirnar til þess fallnar að senda skýr skilaboð til annarra aðila um að ekki myndi borga sig að reyna að keppa við L&h. Var þeim þannig ætlað að vernda og styrkja stöðu L&h á markaðnum.