Ker hf., áður Olíufélagið, Olíuverzlun Íslands hf. (Olís) og Skeljungur hf. skulu greiða Vestmannaeyjabæ rúmar 14 milljónir króna í skaðabætur vegna ólögmæts samráðs um verð eldsneyti. Hæstiréttur kvað upp dóminn í dag.

Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að olíufélögin skyldu greiða bænum 10 milljónir króna í skaðabætur vegna samráðsins, en brotin voru framin á árunum 1997 og 1998.

Vestmannaeyjabær er aðeins annað sveitarfélagið sem sækir rétt sinn vegna verðsamráðs olíufélaganna. Reykjavíkurborg voru dæmdar bætur upp á tæplega 80 milljónir króna vegna verðsamráðs fyrir útboð á vegum borgarinnar.