Heimsmarkaðsverð á olíu hefur verið að lækka í morgun og undanfarna daga. Þannig er verðið á hrávörumarkaði í London komið niður í 74,83 dollara á tunnu og í 75,01 dollar í New York. Opnunarverð í London í morgun var 75,12 dollarar á tunnu og 75,60 í New York.

Svokallað körfuverð sem birt er á vefsíðu OPEC olíuríkjanna var komið niður í 72,6 dollara á föstudag en var í 78,28 dollurum mánudaginn 9. ágúst. Á síðastliðnu rúmu ári hefur körfuverðið OPEC komist hæst í 82,33 dollara þann 10. apríl sl. en var lægst 64,59 dollara tunnan þann 9 júlí 2009. Mánuði seinna, eða 9. ágúst 2009 var körfuverðið 71,35 dollarar.