Olíuverð hækkaði í gær yfir 117 Bandaríkjadali á tunnu í fyrsta sinn. Þegar markaðir lokuðu kostaði tunnan á Bandaríkjamarkaði 116,96 dali á tunnu en í London kostaði tunnan 113,92 Bandaríkjadali á tunnu, sem er met, við lokun markaða.

Nígería er stærsti olíuútflytjandi í Afríku og áttundi stærsti framleiðandi olíu í heimi. Í frétt BBC segir frá því að árásir uppreisnarmanna á olíuiðnað Nígeríu hafi minnkað útflutning landsins um allt að fjórðung. Ofbeldi og pólitísk óvissa hjá þjóðum sem gegna lykilhlutverki við olíuframleiðslu hafi gert sitt til að ýta olíuverði upp í að setja nýtt verðmet reglulega frá því í byrjun árs.

Einnig sé um að kenna ótta um að olíubirgðir muni ekki duga til að mæta aukinni eftirspurn vaxandi hagkerfa í Asíu, aðallega Kína.

Greiningaraðilar telja þó, samkvæmt frétt BBC, að það sem ráði mestu um hækkandi olíuverð sé að fjárfestar kaupa upp olíu og aðra hrávöru þar sem þeir líti á þær sem skjól gagnvart lækkandi Bandaríkjadal. Aðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna hafa þó samkvæmt frétt BBC aukið trú manna á dollaranum, sem hefur styrkst nokkuð gagnvart evru og japönsku jeni.