Trausti Haraldsson, markaðsstjóri Byrs hf., segir frétt á vb.is um að Byr sparisjóður geti ekki greitt innstæður mjög villandi gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins. Það sé mjög mikilvægt að hafa í huga að fréttin eigi við Byr sparisjóð en ekki Byr hf. þar sem öll innlán voru m.a. flutt yfir.

„Fjármálaeftirlitið tók yfir Byr sparisjóð þann 23. apríl.  Byr hf. var síðan stofnaður í kjölfarið sem er í 100% eigu ríkisins.  Þannig heldur starfsemin áfram í óbreyttri mynd. Allar innstæður eru tryggðar samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands frá því í febrúar 2009 sem staðfest var í desember síðastliðnum. Engin röskun verður á þjónustu við viðskiptavini," segir í tölvuskeyti sem Trausti hefur sent Viðskiptablaðinu.

Á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins í dag birtist eftirfarandi frétt:

„Þann 22. apríl sl. tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að taka yfir vald hluthafafundar Byrs sparisjóðs og skipa sjóðnum bráðabirgðastjórn. Það er álit Fjármálaeftirlitsins að sama dag hafi Byr sparisjóður ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga, verðbréfa eða reiðufé þeirra viðskiptavina sem þess kröfðust. Samkvæmt 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999 hefur vegna ofangreindra tilvika stofnast til greiðsluskyldu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gagnvart viðskiptavinum Byrs sparisjóðs sem ekki hafa fengið greiddar innstæður sínar, í samræmi við ákvæði laganna."