*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 28. nóvember 2020 19:01

Ölverk blæs til sóknar

Jólabjórinn Grýla er fyrsti bjór á vegum brugghússins Ölverks sem fer í sölu hjá Vínbúðinni. Fleiri tegundir fylgja í kjölfarið.

Sveinn Ólafur Melsted
Laufey Sif Lárusdóttir og eiginmaður hennar, bruggmeistarinn Elvar Þrastarson, eru eigendur Ölverks ásamt Ragnari Karli Gústafssyni.
Aðsend mynd

Handverksbjór frá brugghúsinu Ölverk í Hveragerði hefur, þar til nú, nær eingöngu verið fáanlegur á samnefndum veitingastað þar í bæ. Nú á dögunum rataði einn af bjórum brugghússins loks í hillur Vínbúðarinnar, en um er að ræða jólabjórinn Grýlu. Laufey Sif Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Ölverks, sem á og rekur fyrirtækið ásamt eiginmanni sínum og bruggmeistara Ölverks, Elvari Þrastarsyni, og Ragnari Karli Gústafssyni, segir að fleiri bjórar á vegum brugghússins muni fara í sölu hjá Vínbúðinni áður en langt um líður.

„Við höfum svo sannarlega farið frekar rólega af stað og verið í þessi þrjú ár að prófa og þróa hinar ýmsu bjórtegundir sem við höfum svo einungis haft á krana á Ölverki. Þannig höfum við fengið frá fyrstu hendi viðbrögð bjórunnenda við bjórunum og fínstillt uppskriftirnar okkar eftir þeim," segir Laufey, spurð um hvers vegna Ölverk hafi ekki hafið sölu á bjórum sínum í Vínbúðinni fyrr en nú, en brugghús og veitingastaður Ölverks, sem sérhæfir sig í eldbökuðum pitsum, var opnaður snemmsumars 2017. „Í upphafi lögðum við áherslu á að setja á fót stöndugan veitingastað áður en við færum á fulla ferð í bjórframleiðslunni. Síðustu ár hefur bjórinn okkar eingöngu verið til í takmörkuðu magni á veitingastaðnum okkar hér í Hveragerði og viðskiptavinir hafa því þurft að gera sér ferð til okkar til þess að smakka bjórana og eins pitsurnar. Margir viðskiptavina okkar hafa gegnum árin lýst yfir áhuga á því að geta keypt bjórinn í neytendaumbúðum og því höfum við haft það bak við eyrað í nokkurn tíma að byrja að tappa bjórnum á dósir og setja í sölu, m.a. í Vínbúðinni."

Fyrir ári hafi svo þessi hugmynd farið á fullt skrið. „Við fórum til Þýskalands á stóra sýningu í nóvember í fyrra, með það fyrir augum að skoða bruggframleiðslutæki og átöppunarvélar." Nú í byrjun árs fjárfestu þau svo í slíkum vélum frá Bandaríkjunum en koma vélanna til landsins frestaðist hins vegar þó nokkuð vegna útbreiðslu COVID-19 faraldursins. „Vélin átti að koma til landsins snemma árs 2020 en kom ekki til landsins fyrr en undir lok sumars sem var lán í óláni þar sem það var töluvert meira að gera á Ölverk núna í sumar heldur en við höfðum þorað að búast við," segir Laufey.

Sex bjórar í sölu

Þegar vélarnar skiluðu sér loks til landsins síðastliðið sumar segir Laufey að þau hafi leitað til auglýsingastofunnar Cirkus til þess að hanna vörulínu með sex mismunandi bjórtegundum sem ætlunin er að fari allar í sölu hjá Vínbúðinni á næstu mánuðum.  Einnig verður settur á markað léttbjór sem verður þá fáanlegur á völdum sölustöðum.

„Bjórtegundirnar eru úr ýmsum áttum og hönnun umbúðanna og nöfn bjóranna eru óður til hverasvæða hér á Íslandi. Grýla er t.d. gamall goshver sem er staðsettur hér í Hveragerði en er þó því miður ekki lengur virkur. Á dósunum má svo finna skemmtilega texta um hverina ásamt hnitum með nákvæmri staðsetningu þeirra. Við nýtum jarðgufu í framleiðsluferlinu og Ölverk brugghús er eina jarðgufuknúna brugghúsið á Íslandi, og í raun eitt af örfáum í heiminum. Bruggmeistari Ölverks er Elvar Þrastarson sem hefur frá upphafi síns bruggmeistaraferils verið þekktur fyrir að vera óhræddur við að fara ótroðnar slóðir í bjórgerðinni og það að framleiða úrvals bjórtegundir við allra hæfi," segir Laufey.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Vínbúðin Hveragerði bjór Ölverk