OMX verður skráð á aðallista KAuphallarinnar á morgun um leið og félagið tekur við rekstri Kauphallarinnar. OMX rekur kauphallirnar í Kaupmannahöfn, Helsinki, Stokkhólmi, Vilnius, Riga og Tallin og sér meira en 60 mörkuðum í yfir 50 löndum fyrir tæknilausnum.

Þetta er samkvæmt samningi sem gengið var frá um miðjan október og gerist í kjölfar þess að í dag var gengið frá sölu Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing hf. (eiganda Kauphallar Íslands og Verðbréfaskráningar Íslands) til OMX AB.


Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að skráning OMX sé fyrsta tvíhliða skráningin í Kauphöllinni, þar sem aðalskráning (e. primary listing) er á öðrum markaði. Skráningin markar enn fremur þau tímamót í sögu íslensks verðbréfamarkaðar að nú er Kauphöllin komin á markað.

"Með því að skrá hluta bréfa sinna í íslenskum krónum á íslenska markaðnum vonast OMX til þess að vekja áhuga íslenskra fjárfesta á félaginu og leggja frekari grunn að farsælum samruna verðbréfamarkaða á Norðurlöndum," segir í tilkynningu Kauphallarinnar.


Auðkenni OMX í viðskiptakerfi Kauphallarinnar verður OMX ISK og munu viðskipti hefjast á morgun 1. desember.