„Ég get fullvissað ykkur um að í samkeppnislöndum Íslands, í Skandinavíu, tíðkast ekki að stjórnvöld reki slíkan fleyg í eina atvinnugrein sem svo dramatískum hætti og með jafn skömmum fyrirvara líkt og boðað er.“ Dag Andre fjallar um fyrirhugaða hækkun á vörugjöldum á bílaleigur.

Þetta segir Dag Andre Johansen, framkvæmdastjóri og eigandi RAC Skandinavia í opnu bréfi til þingmanna í Fréttablaðinu í dag. RAC Skandinavia á og rekur bílaleigurnar Avis og Budget.

Dag Andre hefur bréfið á orðunum, „Ágæti þingmaður. Mig langar að deila með þér einkennilegri reynslu minni af því að vera erlendur fjárfestir á Íslandi.“ Svo lýsir hann óvenjulegu efnahagsástandi, meðal annars í ljósi gjaldeyrishafta, og segist hafa heyrt efasemdaraddir um að íslensk fyrirtæki væru góður kostur til fjárfestingar. Hann hafi þó séð hér ýmis tækifæri, meðal annars í atvinnustefnu með áherslu á ferðaþjónustu og verkefnum eins og Inspired by Iceland.

Dag segir að ekki síst vegna starfsreynslu sinnar í Skandinavíu hafi hann orðið undrandi á þeim fyrirvaralausu breytingum sem nú er boðuð, og vísar þá til hækkunar vörugjalda.

Dag segir fullvíst að viðbrögð bílaleiga við hærri vörugjöldum verði þess eðlis að tekjur vegna gjaldanna til ríkissjóðs verði lægri en gert er ráð fyrir. Hann segir að bílaleigur muni geta keypt færri bíla, dýrari fja´rfestingar muni kalla á verðhækkanir sem geti haft áhrif á fjölda ferðamanna.

Þá segir Dag líkur á að bílaleigur taki upp kílómetragjald, sem mun takmarka akstur þeirra sem leigja bílana og lengja þannig líftíma þeirra. Slíkt sé hins vegar líklegt til að draga úr ferðalögum og dreifingu ferðamanna um landið.