Stjórnvöld í Kína hafa fyrirskipað opinberum starfsmönnum í landinu að skrúfa niður í termóstatinu, minnka vatnsnotkun og spara orku eins og kostur er. Fyrirskipunin er liður í aðgerð kínverskra stjórnvalda til að minnka orkunotkun í landinu, samkvæmt því sem segir í Dagblaði fólksins í Kína.

Þrátt fyrir að vetur sé að ganga í garð í norður Kína og hann geti verið ansi harður hefur opinberum starfsmönnum verið uppálagt að sýna gott fordæmi fyrir almenning í landinu.

Samkvæmt fyrirskipuninni má hitinn á skrifstofum í opinnberum byggingum ekki fara yfir 21°C og mönnum er ráðlagt að sleppa því að nota lyftur og draga úr notkun hraðsuðukatla til að búa til te. Þá er einnig mælst til að þeir sem kaupa bíl velji sparneytnar bifreiðar til að minnka olíunotkun og draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Kína er annar stærsti notandi olíu í heiminum og mengunarvarnir í iðnaði þar í landi þykja ekki upp á marga fiska. Með aðgerðunum er talið að kínversk stjórnvöld séu að reyna að koma á móts við kröfur um úrbætur á þessum sviðum.