Íslandsbanki tilkynnti á dögunum að bankinn ætlaði að opna bankann og hefði opnað fyrir umsóknir þar sem þriðji aðili getur óskað eftir samstarfi við bankann um þróun nýrra lausna.

Bankinn er sá fyrsti á Íslandi til að tilkynna um slíka breytingu en bankar eins og BBVA og Nordea eru langt komnir í þessum efnum. Ný tilskipun, PSD2, tekur gildi á næsta ári en þá er bönkum skylt að hleypa þriðja aðila að gögnum um viðskiptavini að gefnu leyfi frá viðskiptavinum.

Þegar margar góðar umsóknir borist

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs Íslandsbanka, segir umsóknarferlið fara vel af stað og hafa margir sýnt þessu áhuga.

„Það hafa þegar borist margar góðar umsóknir og við finnum fyrir gríðarlega miklum áhuga. Staðfestir Third Party Payment Service Provider (TPP) geta sótt um og verður aðgengi veitt í gegnum vefþjónustur til að gæta ýtrasta öryggis,“ segir Sigríður Hrefna.

„Þetta eru allt frá litlum aðilum til skráðra fyrirtækja á markaði sem eru að sækja sem hafa óskað eftir samstarfi. Það eru því fjölmargir sem sjá tækifæri í því að þróa nýjar fjártæknilausnir.“

Flýtir fyrir þróun bankalausna

Sigríður segir að með þessu muni flýta verulega fyrir þróun lausna í bankaþjónustu sem sé jákvætt og auki samkeppni. Bankinn hafi unnið mikið með nýsköpunarfyrirtækjum líkt og Meniga og Memento að lausnum sem margir þekki í dag líkt og KASS og Fríðu.

Aðspurð hvernig bankinn sjá fyrir sér farveg bankans með þessum aðilum sem sæki nú um aðgang að gögnum bankans segir Sigríður Hrefna að besta niðurstaðan væri frekara samstarf.

„Við munum að sjálfsögðu vilja nýta okkur þær lausnir sem verða til og henta okkar viðskiptavinum. Við sjáum vissulega tækifæri til að fjárfesta í einhverjum lausnum en æskilegast væri að eiga viðskipti við önnur fyrirtæki og nýta þannig þeirri lausnir.“