OMX kauphallirnar hafa ákveðið að innleiða svokallaða „lekaliða" (circuit breaker) og „hliðverði" (trading safeguards) sem eiga að draga úr óvissu á tímum þegar flökt á verði er mikið og koma í veg fyrir mistök í viðskiptum.

Lekaliðarnir verði tengdir viðskiptum með hlutabréf og fylgist með miklum sveiflum í verði. Verði sveiflurnar umfram ákveðin mörk verður sjálfkrafa hlé á pörun viðskipta, allt upp í fjórar mínútur. Á meðan gefst markaðsaðilum ráðrúm til að meta nýjar upplýsingar, endurmeta stöðu sína eða afturkalla rangar pantanir.

Hliðverðirnir koma til sögunnar þegar verð breytist mjög verulega frá síðustu viðskiptum og viðskiptunum er þá einfaldlega hafnað. Markmiðið er að útiloka viðskipti á grundvelli innsláttarvillna.   Samkvæmt tilkynningu Kauphallarinnar er þessi ákvörðun tekin í samráði við markaðsaðila og verður öryggiskerfið virkt í byrjun júní.