Rekstrarhagnaður (EBITDA) Össurar fyrir fjármagnsliði var 19 milljónir Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi. Það jafngildir rúmlega 2,1 milljarði króna. Össur birti ársfjórðugsuppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung í gær.

EBITDA framlegðin er um 22% af sölu en sala nam alls 87 milljónum dala, jafnvirði um 9,7 miljarða króna. Í tlkynningu frá félaginu segir að sala hafi aukist á þriðja ársfjórðungi um 7% mælt í staðbundinni mynd en hún nam 84 milljónum dala á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Hagnaður á tímabilinu nam 4 milljónum dala, jafnvirði tæplega 450 milljóna króna, samanborið við 5 milljóna dala hagnað á sama tímabili í fyrra. Í tilkynningu segir að neikvæð gengisáhrif á fjármagnsliði hafi haft töluverð áhrif á hagnaðinn.

Söluaukning á spelkum og stuðningsvörum var um 12% mælt í staðbundinni mynd. Þá jókst sala á stoðtækjum um 3%.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, kveðst ánægður með sölu á nýjum spelkum og stuðningsvörum. „Sala á spelkum og stuðningsvörum heldur áfram að vera góð og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Mikið af nýjum vörum hefur komið út á árinu og við erum ánægð með að nýjar spelkur og stuðningsvörur hafa jákvæð áhrif á söluvöxt á fjórðungnum. Meðal nýrra vara sem voru kynntar á fjórðungnum er PROPRIO FOOT sem er önnur varan í Bionic vörulínu Össurar. Bionic vörulínan hefur skapað spennu og eftirvæntingu á markaðnum og erum við  staðföst í að þróa þessa vörulínu enn frekar.“

Upprunaleg áætlun félagsins gerir ráð fyrir 4-6% innri vexti á árinu og gera stjórnendur Össurar ráð fyrir að söluaukning verði í takti við þá áætlun. Gert er ráð fyrir að vöxtur innri EBITDU verði 5-7%, að því er segir í tilkynningu