Í nýlegri raforkuspá er því spáð að árið 2050 verði hátt í 80% allra bíla á Íslandi rafbílar. Ef innflutningur á bílaeldsneyti minnkar í sama takti og hlutdeild bensín- og dísilbíla myndi það þýða 26 milljarða minnkun eldsneytisinnflutnings á ári hverju miðað við núverandi gengi og verðlag samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.

Á móti kemur raforkuþörf rafbíla. Spáð er að hún muni nema um 930 gígavattstundum árið 2050, eða sem samsvarar notkun járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Væri sú orka seld á meðalverði Landsvirkjunar til stóriðju um þessar mundir væri verðmæti hennar 2,8 milljarðar króna, sem er tífalt minni upphæð en sem nemur sparnaðinum af minni eldsneytisinnflutningi.

Þetta bendir til þess að mikill þjóðhagslegur sparnaður sé af rafvæðingu bílaflotans, þó að vitaskuld verði að gera þá fyrirvara við þessa útreikninga að mikil óvissa er um þróun á verði raforku og olíu til framtíðar. Varanleg minnkun innflutnings á olíu gæti jafnframt valdið hækkun á gengi krónunnar. Það myndi að öllu óbreyttu valda aukningu á öðrum innflutningi.

Ekki ógn, heldur áskorun

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs, segir að þótt magn selds eldsneytis hafi aukist töluvert á síðustu árum sé alveg ljóst að til lengri tíma litið muni selt magn minnka í flestum tegundum, nema ef vera skyldi á sviði flugvélaeldsneytis. Hann segist ekki líta á þróunina sem ógn við rekstur fyrirtækisins, heldur áskorun. Skeljungur hafi búið sig undir breytingar á eldsneytismarkaðnum með ýmsum hætti.

Ítarlega er fjallað um orkuskipti í samgöngum í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Leiðrétting: Rangt var farið með nafn Valgeirs í prentútgáfu fréttinnar. Beðist er velvirðingar á mistökunum.