Ný búvörulög voru samþykkt á Alþingi þann 21. mars sl. en breytingar á lögunum sneru einna helst að framleiðendafélögum. Var það upphaflegt markmið matvælaráðherra að auðvelda fyrirtækjum í eigu eða undir meirihlutastjórn frumframleiðenda að eiga með sé samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndunum.

Milli annarrar og þriðju umræðu tók frumvarpið aftur á móti talsverðum breytingum, sem bæði stjórnarandstaðan og hagsmunasamtök mótmæltu harðlega. Töldu þau að lögin væru líkleg til að brjóta gegn EES-samningnum og stjórnarskránni en í núverandi mynd veittu þau víðtæka undanþágu frá samkeppnislögum.

Á dögunum sendu síðan Félag atvinnurekenda (FA), VR og Neytendasamtökin Katrínu Jakobsdóttur, sem var þá starfandi matvælaráðherra, erindi og fóru fram á það að ráðherra beitti sér fyrir ógildingu laganna en að óbreyttu væru þau skaðleg neytendum, launþegum og verslun í landinu.

Ganga mun lengra en hið upprunalega frumvarp

Matvælaráðuneytið sendi í vikunni fyrir hönd ráðherra umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis þar sem athugasemdum við lögin er komið á framfæri. Segir þar að málefni framleiðendafélaga og samkeppnisundanþága fyrir ákveðna hluta framleiðslukeðju kjötafurða hafi verið til skoðunar í ráðuneytinu um árabil og frumvarpið tekið mið af reglum í nágrannaríkjunum.

„Breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu í meðförum þingsins ganga mun lengra en hið upprunalega frumvarp. Með hinum nýju lögum er framleiðendafélögum veitt víðtækari undanþága frá samkeppnislögum, þar sem samrunaeftirlit er einnig undanþegið, og ekki er gerð krafa um eignarhald eða stjórn bænda í framleiðendafélögum,“ segir í umsögn ráðuneytisins.

Í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis við aðra umræðu hafi komið fram að þó ákvæði frumvarpsins sem snúa að undanþágu frá samkeppnislögum væru rýmri en almennt gildir innan Evrópusambandsins væri ekki séð að óheimilt væri samkvæmt EES-samningnum að setja slíka rýmri reglu.

Matvælaráðuneytið bendir þó á að skilyrði fyrir undanþágu sem atvinnuveganefnd vísaði til – að framleiðendafélag sé í eigu eða undir stjórn frumframleiðanda (bænda) – hafi ekki verið að finna í lögunum sjálfum. Því gætu fyrirtæki sem starfa á þessum markaði og stundað fjölbreytta starfsemi fallið undir undanþáguna en þar að auki sé ekki kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað framleiðendafélaga frá annarri starfsemi.

„Misræmi í lagatexta og lögskýringargögnum hvað þetta varðar er óheppilegt og hefur valdið misskilningi í opinberri umræðu um málið. Sé þess kostur er æskilegt að gerðar verði leiðréttingar á nefndaráliti nefndarinnar eða leiðréttum upplýsingum komið á framfæri með öðrum hætti.“

Taka undir áhyggjur um áhrif á EES-samninginn

Einnig er vísað til ákvæða laganna sem snúa að eftirliti Samkeppniseftirlitsins og skilyrði sem framleiðandafélög skulu uppfylla. Ráðuneytið segir ekki útfært í lögum hvernig eftirlitinu skuli háttað auk þess sem óljóst væri hvaða úrræða Samkeppniseftirlitið gæti gripið til. Því sé ljóst að ákveðin óvissa sé uppi.

Samkeppniseftirlitið hefur þá bent á að framleiðendafélög munu við gildistöku laganna búa við víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum og ekki sé gert ráð fyrir að annars konar aðhald komi í staðinn. Ráðuneytið telur æskilegt að skoða hvort þörf væri á varnöglum við lagasetningunna til að gæta að hagsmunum bænda og neytenda, svo sem með ákvæðum um frekari opinbera verðlagningu á málefnasviðinu.

„Að lokum tekur ráðuneytið undir áhyggjur Samkeppniseftirlitsins um áhrif laganna gagnvart skuldbindingum samkvæmt EES reglum, einkum 53. gr. EES samningsins. Ljóst er að áhrifamat hins upprunalega frumvarps nær ekki til svo víðtækra breytinga líkt og ákveðið var að gera á lögunum í meðförum þingsins. Búist er við því að fyrirspurn berist frá ESA til íslenskra stjórnvalda í tengslum við lagabreytingarnar,“ segir í umsögn ráðuneytisins.

Að lokum kveðst ráðuneytið reiðubúið til að gera atvinnuveganefnd nánari grein fyrir þessum athugasemdum og frekara samtals um málið sé þess óskað.

Bjarkey ekki stætt á öðru en að fylgja erindi ráðuneytisins

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifa í grein á Vísi um umfjöllun ráðuneytisins á Vísi í dag. Þar segja þeir að óhætt sé að segja að það sé einsdæmi í seinni tíð að ráðuneyti sendi Alþingi jafnharða gagnrýni á nýsett lög.

„Atvinnuveganefnd Alþingis er ekki stætt á öðru, í ljósi þeirrar gagnrýni sem fram er komin, en að taka málið til endurskoðunar og gera breytingar á lögunum eða fella þau úr gildi. Því verður varla trúað að nefndin hyggist áfram ganga erinda sérhagsmuna en hunsa almannahagsmuni,“ segja þremenningarnir í greininni.

„Nýbakaður matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, er í þeirri sérkennilegu stöðu að hafa verið í meirihluta atvinnuveganefndarinnar, sem keyrði ólögin í gegnum þingið. Að mati greinarhöfunda er henni heldur ekki stætt á öðru en að fylgja erindi ráðuneytis síns eftir og fara fram á breytingar á lögunum. Ráðherrar, rétt eins og þingmenn, eiga að vinna að almannahagsmunum en ekki púkka undir sérhagsmuni.“