Óvissa um uppsprettur hagvaxtar á Íslandi dregur úr horfum á vexti að mati sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í skýrslu nefndarinnar vegna sjöttu og síðustu endurskoðunar á efnahagsáætlum sjóðsins og stjórnvalda segir að einkaneysla og fjárfesting séu drifkraftar hagvaxtar til meðallangs tíma en ekki sé ljóst hvernig þjóðin mun nýta þær auðugu náttúruauðlindir sem hún býr yfir. Þá sé stefna ríkisstjórnarinnar varðandi fjárfestingu óljós sem auki óvissu og dragi úr trausti viðskiptalífsins. Ennfremur sé óljóst hversu mikil geta heimilanna í landinu sé til þess að halda uppi neyslu þegar fram líða stundir.